Heilbrigði og sjúkdómar
Ofnæmi
Sífellt fleiri kettir þjást af ofnæmi. Í dag er vitað að sjúkdómar sem voru áður ranglega taldir stafa af hormónatruflunum eða atferlisvandamálum stafa oft af ofnæmisviðbrögðum. Dæmi um ofnæmisviðbrögð eru:
- Psykogen alopeci, þ.e.a.s. hármissir sem verður þegar kötturinn sleikir sig of mikið á ákveðnum stöðum líkamans.
- Eosinofilt granulom, heiti á húðbreytingum sem líkjast sárum.
- Miliar dermatit, húðbreyting sem flær hafa valdið.
Sífellt oftar er sannreynt að kettir hafa ofnæmi. Að hluta til er það vegna þess að kattaeigendur hafa nú meiri áhuga á að fá dýralækni til að rannsaka og meðhöndla húðsjúkdóma. Að hluta til vegna þess að dýralæknar hafa tekið upp nýjar og betri greiningaraðferðir.
Sé um ofnæmi að ræða bregst húð kattarins við hlutum sem eru að öðru leyti skaðlausir í umhverfinu, s.s. blómafrjókornum, ryki og algengum efnum í fóðrinu. Það er talið að viðbrögðin séu arfgeng. Það er þó háð fleiri þáttum hvort sjúkdómurinn komi fram eða ekki. Almennt gildir það, áður en ofnæmisviðbrögðin koma fram, að það kemur fram óþol gagnvart efninu þegar kötturinn kemst í fyrsta skipti í snertingu við efnið sem veldur ofnæminu, hinn svokallaða ofnæmisvaka.
Við næsta eða endurtekið samband við ofnæmisvakann losna mörg efni í líkamanum sem geta valdið kláða og bólgum. Við bein ofnæmisviðbrögð koma einkennin fram 30 mínútum til 6 tíma. Seinkuð ofnæmisviðbrögð koma fyrst fram eftir nokkra daga. Og ef það síðastnefnda er tilfellið er auðvitað enn erfiðara að komast að því hvað hefur valdið þeim.
Einkenni á húð og feldi
Það er oft talað um kláða þótt hann sé ekki sýnilegur hjá kettinum. Merki um hann getur verið mismunandi mikið hárlos eða að kötturinn sleiki sig oftar og meira en venjulega. Staðir þar sem kötturinn á auðvelt með að sleikja sig, s.s. á fótum og baki, eru algengustu staðirnir.
Sé um fóðurofnæmi að ræða geta komið upp vandamál í maga og þörmum en oft kemur fram kláði á milli augna og í eyrum. Það getur líka komið fram kláði um allan líkamann. En ef það sjást engar húðbreytingar og aðeins hárlos og ef þetta er einn af köttunum sem neitar að sleikja sig fyrir framan eiganda sinn getur maður alveg álitið að orsökin fyrir hárlosinu hafi verið hormónabreytingar eða atferlisvandamál.
Öfugt við það sem margir halda eru aðeins 1 – 6% af öllum húðsjúkdómum af völdum fóðurofnæmis. Þar er ofnæmisvakinn í flestum tilfellum mjög sérhæfð prótínsambönd í t.d. hænsnaeggjum, nautakjöti eða mjólk sem kötturinn hefur verið í sambandi við í marga mánuði eða ár.
Við þeim húðbreytingum, þar sem er ekki alveg ljóst hvaða ofnæmisvaka er um að ræða, er þörf á mjög nákvæmri rannsókn til að geta komið með rétta greiningu.
Hjá útiketti eru flær líklegri en t.d. fóðurofnæmi. Ef það finnast sömu húðbreytingar hjá öðrum dýrum á sama heimili eða hjá eigandanum bendir það frekar til yfirfærslu á flóm, áttfætlumaurum eða húðsveppi en ofnæmis.
Ef grunur vaknar um fóðurofnæmi ætti að skipta um fóður. Það er aðeins hægt að greina fóðurofnæmi með því að láta köttinn fara á annað fóður.
Í upphafi setur maður köttinn á svokallað útilokunarmataræði þar sem prótínið og kolvetnið eiga ein upptök. Við mælum með villibráð, önd, kanínu, lambi, geit eða einni sérstakri fisktegund. Fóðurhlutar, sem kötturinn sem er með ofnæmið komst í samband við, s.s. nautakjöt og mjólkurvörur, eru útilokaðar. Hvað kolvetni varðar er mælt með soðnum, ómeðhöndluðum hrísgrjónum og kartöflum. Það á að halda útilokunarmataræðinu áfram í 3 – 12 vikur þar til ástandið lagast.
Í öðrum fasa er rannsakað kerfisbundið, með því að bæta einu fóðurefni við í einu, hvaða efni valda ofnæmi og hver ekki. Ofnæmisviðbrögð koma oftast fram þremur dögum eftir fóðrun en þau geta líka komið fram á nokkrum klukkustundum. Niðurstaðan leiðir síðan til þess að hægt sé að finna fóður sem kötturinn þolir.
Linun sársauka er möguleg
Við allar tegundir ofnæmis á maður að forðast efnin sem valda ofnæminu en það getur verið erfitt þegar um útiketti er að ræða. Það eru til ýmis lyf sem draga úr viðbrögðunum sem valda kláða og bólgum.
Ákveðin ofnæmislyf, sem draga úr kláðanum, eru góður valkostur í staðinn fyrir cortison sem er oft ómissandi. Annar góður valkostur eru töflur sem koma í veg fyrir að efnið sem veldur kláðanum nái út í sýktu frumurnar. Einnig geta ákveðnar fitusýrur dregið verulega úr einkennunum. Ef maður kemst ekki að því hvað veldur ofnæminu eða að það sé ekki hægt að forðast efnin sem valda ofnæminu þarf að gefa lyfin ævilangt og það getur haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér.
En til að byrja með á að meðhöndla alla ketti, sem mann grunar að séu með ofnæmi, við flóm og öðrum sníkjudýrum til að útiloka að það séu þau sem valdi kláðanum. Það er nefnilega aðeins 10 – 15% af öllu ofnæmi í köttum af völdum fóðurs. En ef þið eruð í vafa ættuð þið að hafa samband við dýralækninn ykkar.
Skýringar á nokkrum læknisfræðilegum heitum sem koma fram í textanum:
Allergen = efni sem valda ofnæmi.
Antihistaminika = lyf við kláða (án cortison).
Atopisk dermatit = bólguviðbrögð í húð þegar ofnæmisvaki kemst í gegnum húðina.
Cortison = hormón sem nýrnahettubörkurinn myndar.
Posinofila granulom = húðbreytingar sem líkjast sárum af ýmsum gerðum á maga, höfði eða afturfótum.
Psykogen alopeci = hárlos sem verður ef kötturinn „þvær sér“ of mikið, tengist oftast kláða og stafar af ýmsum ástæðum (streitu, ofnæmi, o.s.frv.). Það var áður litið á þetta sem atferlistruflun.
Sensibilering = fyrsta samband við efni sem veldur ofnæmi